Flýtilyklar
LOKAÐ TÍMABUNDIÐ Í MJÖLNI VEGNA SAMKOMUBANNS
Í samræmi við fyrirmæli stjórnvalda um aðgerðir vegna Covid-19 er áfram tímabundið lokað í Mjölni, eða þar til annað verður tilkynnt. Frá 4. maí verður þó hægt að hefja allar æfingar barna- og unglinga á leik- og grunnskólaaldri, bæði úti og inni.
Samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðuneytisins frá 21. apríl 2020 skulu m.a. húsnæði líkamsræktarstöðva áfram verða lokuð almenningi eftir 4. maí og til og með 1. júní en áður höfðu hertar takmarkanir á samkomum vegna Covid-19 kveðið á um að loka öllum íþróttahúsum og líkamsræktarstöðvum frá 24. mars 2020 og samkomubannið þá framlengt til 4. maí. Eins og staðan er núna verður því lokað í Mjölni fyrir aðra en börn og unglinga á leik- og grunnskólaaldri til 2. júní eða þar til annað verður tilkynnt. Við vonumst að geta samt til að geta hafið einhverja starfsemi fyrr en slíkt fer alfarið eftir fyrirmælum stjórnvalda.
Mjölnir mun bæta tímanum sem lokað verður frá 24. mars sjálfkrafa aftan við áskrift virkra iðkenda þannig að hún lengist eftir því hversu lengi lokað verður.
Góðu fréttirnar eru þó þær að frá og með 4. maí er samkvæmt auglýsingunni hægt að hefja allar æfingar barna- og unglinga á leik- og grunnskólaaldri, bæði úti og inni. Fyrirkomulag þeirra æfinga mun birtast í annarri frétt. Við erum því farin að sjá til lands í þessu ótrúlega ástandi sem ríkt hefur vegna Covid-19 frá því í síðasta mánuði.
Við viljum árétta að þessar tímabundnu breytingar sem gerðar hafa verið á starfsemi Mjölnis nú eru í samræmi við hrein og klár fyrirmæli yfirvalda vegna fordæmalausra stjórnvaldsaðgerða til að sporna við útbreiðslu kórónaveirunnar (Covid-19). Við í Mjölni verðum líkt og önnur félög og fyrirtæki í landinu að bregðast við þeim fyrirmælum og höfum fáa kosti í því máli. Þetta hittir okkur hart eins og aðra en við reynum að gera allt sem við getum til að koma til móts við iðkendur okkar. Fjarkennsla hefur verið frá lokun og við höfum m.a. lánað iðkendum með virk kort ketilbjöllur meðan birgðir endast.