Flýtilyklar
BARNA- OG UNGLINGASTARF HEFST 4. MAÍ
Við vonum öll að nú sjái til lands í þessu ótrúlega ástandi sem ríkt hefur vegna Covid-19 frá því í síðasta mánuði. Síðastliðinn þriðjudag, 21. apríl, gaf heilbrigðisráðuneytið út nýja auglýsingu um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem gildir frá 4. maí 2020 (https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx…). Okkar skilningur á þessari auglýsingu er sá að við getum aftur hafið allar æfingar barna- og unglinga á leik- og grunnskólaaldri frá og með 4. maí 2020, bæði inni og úti. Til að vera algjörlega örugg um að þetta væri réttur skilningur sendum við fyrirspurn þess efnis til Almannavarna og Embættis landlæknis. Víðir Reynisson svaraði okkur og staðfesti að þessi skilningur okkar væri réttur. Æfingar barna og unglinga á grunnskólaaldri hefjast því í Mjölni frá og með mánudeginum 4. maí næstkomandi (sjá stundatöflu með þessari frétt).
Um börn yngri en 18 ára en ekki á grunnskólaaldri, t.d. 16 og 17 ára sem lokið hafa grunnskóla, gilda hins vegar sömu reglur og um fullorðna. Þau mega þó mæta í 7 manna hópum á útiæfingar. Við ætlum því að reyna að skipuleggja æfingar fyrir þennan hóp þannig að boðið verður uppá 10 tíma í viku til að dreifa hópnum á æfingar. Þessir unglingar þurfa því að vera forskráðir á æfingarnar. Þessi hópur má ekki nota búningsklefa né sturtur og verður að halda tveggja metra bili á æfingum. Þessar æfingar eru merktar með BLÁU í maí stundatöflunni.
Um börn og unglinga á grunnskólaaldri gilda hins vegar ekki þessar reglur um fjölda né fjarlægðatakmarkanir og sá hópur má nota búningsklefa þó mælt sé með því að halda slíku í lágmarki ef hægt er. Sama á við um foreldra inni í Mjölni. Við verðum að halda því í algjöru lágmarki og virða þar tveggja metra regluna. Ef foreldrar þurfa nauðsynlega að bíða eftir börnum sínum er best að þau geri það í bílum sínum fyrir utan en hugsanlega verður hægt að vera inni á Drukkstofunni meðan rými leyfir. Það verður hins vegar EKKI hægt að vera á ganginum fyrir framan salinn né í anddyri eða móttöku.
Við munum meðan húsrúm leyfir, og önnur starfsemi er ekki hafin í húsinu, bjóða uppá aukinn fjölda æfinga í viku fyrir þennan aldurshóp (leik- og grunnskólaaldur) líkt og stundataflan ber með sér. Þessar æfingar eru merktar með APPELSÍNUGULU (5-8 ára), GULU (8-11 ára) og GRÆNU (12-15 ára, þarna eru líka þeir sem eru orðnir 16 ára en í grunnskóla) og takið eftir að þessum aldurshópum hefur verið breytt tímabundið frá því sem áður var. Þetta gerum við til að hafa dreifinguna sem mesta.
Takið líka eftir að Víkingaþrek unglinga, merkt með GRÁU, er á þriðjudögum og fimmtudögum, líkt og áður, en nú á föstudögum í stað laugardaga þar sem Mjölnir er lokaður um helgar alla vega fyrst um sinn.
Krakkaboxið og unglingaboxið er á sínum stað (merkt LJÓSBLÁTT, BRÚNT OG RAUTT).
Við leggjum áherslu á að stundataflan hér með fréttinni gildir frá 4. maí og þar til annað verður tilkynnt. Við gerum núna ráð fyrir að það verði út maí, sem er gildistími núverandi auglýsingar heilbrigðisráðuneytisins um samkomubann. Þetta fer þó að sjálfsögðu eftir fyrirmælum stjórnavalda. Mjölnir er því að öðru leyti enn lokaður þar til annað verður tilkynnt.