Flýtilyklar
GUNNAR MEÐ TVÖ MET Í VELTIVIGT UFC
Gunnar Nelson sigraði Bryan Barberena um síðustu helgi. Með sigrinum á Gunnar nú tvö met í veltivigt UFC.
Gunnar Nelson sigraði Barberena með armlás í 1. lotu. Þetta var 8. sigur Gunnars með uppgjafartaki í UFC og hans 7. sigur með uppgjafartaki í veltivigtinni sem er met í þyngdarflokknum. Fyrir bardagann voru þeir Demian Maia og Chris Lytle jafnir Gunnari með sex sigra í veltivigtinni eftir uppgjafartak.
Fyrsti sigur Gunnars í UFC var í 175 punda hentivigt (e. catchweight) þar sem andstæðingurinn þá, DaMarques Johnson, gat ekki náð 170 punda veltivigtarmarkinu. Johnson vigtaði sig inn 183 pund eða 12 pundum yfir upphaflega markinu. Gunnar hefði því átt að vera búinn að taka framúr þeim Maia og Lytle en trónir nú einn á toppnum.
Gunnar er einnig methafi yfir höggnýtingu í veltivigtinni. 60,5% högga Gunnars lenda sem er það besta í veltivigtinni. Gunnar er ótrúlega nákvæmur með höggin sín og fara fá högg hjá honum forgörðum. Höggin hans hitta og er lítið um vindhögg hjá okkar manni. Þegar horft er á UFC í heild sinni er Gunnar í 6. sæti yfir höggnýtingu en Alistair Overeem trónir þar á toppnum með 74,3% högga sem hitta í mark.