Flýtilyklar
GUNNAR MEÐ FRÁBÆRAN SIGUR Í LONDON
Gunnar Nelson átti magnað frammistöðu þegar hann sigraði Bryan Barberena í 1. lotu. Þetta var 10. sigur Gunnars í UFC og sá 8. með uppgjafartaki.
Bardagi Gunnars við Barberena fór fram í O2 höllinni í London í kvöld. Þetta er í fimmta sinn sem Gunnar berst í höllinni og fékk hann frábærar móttökur í höllinni enda fjölmargir Íslendingar meðal áhorfenda.
Barberena byrjaði bardagann á nokkrum spörkum í fætur Gunnars en eftir um 90 sekúndur mættust þeir í clinchinu upp við búrið. Gunnar reyndi að taka hann niður en Barberena varðist ágætilega. Þegar 2 mínútur voru eftir af lotunni tókst Gunnari að lyfta Barberena hátt upp og skella honum niður í gólfið.
Þegar í gólfið var komið var þetta aldrei spurning. Gunnar lenti nokkrum olnbogum og var Barberena aldrei nálægt því að standa upp. Þegar um 20 sekúndur voru eftir skreið Gunnar í mount. Gunnar heyrði í horninu sínu kalla tímann og sótti strax í armlás. Lásinn var fullkominn og neyddist Barberena til að tappa út þegar 9 sekúndur voru eftir. Frábær frammistaða hjá Gunnari! Gunnar fékk að launum bónus fyrir bestu frammistöðu kvöldsins.
Þetta var tíundi sigur Gunnars í UFC en átta af þeim hafa komið eftir uppgjafartök. Þetta var jafntframt sjöundi sigurinn hjá Gunnari í veltivigt með uppgjafartaki og er það met. Fyrir bardagann voru þeir Demian Maia og Chris Lytle jafnir Gunnari með sex sigra í veltivigtinni eftir uppgjafartak. Gunnar hefur tekið framfyrir þá en Maia er síðan með fimm sigra í millivigt eftir uppgjafartak.
Fyrsti sigur Gunnars í UFC var í 175 punda hentivigt (e. catchweight) þar sem andstæðingurinn þá, DaMarques Johnson, gat ekki náð 170 punda veltivigtarmarkinu. Johnson vigtaði sig inn 183 pund eða 12 pundum yfir upphaflega markinu. Gunnar er því með 8 sigra með uppgjafartaki í UFC og er hann búinn að jafna fjölda sigra Frank Mir með uppgjafartaki. Gunnar getur vel klifrað hærra upp stigann þar sem Frank Mir, Nate Diaz og Royce Gracie eru annað hvort hættir eða búnir að yfirgefa UFC.
Gunnar fór yfir bardagann í nýjasta Grind þættinum.
The Grind with Gunnar Nelson: Gunnar Nelson Breaks Down His Latest Victory Against Bryan Barberena from Mjolnir MMA on Vimeo.