Flýtilyklar
VIKTOR GUNNARSSON MEÐ ÖRUGGAN SIGUR Á BATTLE ARENA
Þrír af okkar mönnum stóðu í eldlínunni á laugardagskvöldið þegar þeir, Viktor Gunnarsson, Anton Smári Hrafnhildarson og Steinar Bergsson kepptu á bardagakvöldi Battle Arena á Englandi.
Anton og Steinar voru þarna að stíga sín fyrstu spor sem keppendur í MMA en Viktor að taka þátt í sínum fimmta bardaga. Allir voru bardagarnir eftir áhugamannareglum. Mikael Aclipen átti að vera sá fjórði og keppa um áhugamannatitil Battle Arena en andstæðingur hans þurfti að draga sig út úr keppninni þremur dögum fyrir bardagann og enginn andstæðingur fékkst með svo stuttum fyrirvara þó Mikael væri mættur út til Englands.
Allir stóðu strákarnir sig með prýði og náðu í góða reynslu, enda fóru bardagarnir allir í dómaraúrskurð eftir þrjár lotur.
Viktor sigraði andstæðing sinn, heimamanninn Hamid Choudhary, mjög sannfærandi á samróma dómaraúrskurði og sýndi yfirburði allar þrjár loturnar.
Bardagar þeirra Antons og Steinars voru mun jafnari en enduðu báðir með því að dómararnir gáfu andstæðingum þeirra sigurinn. Steinar mætti Norðmanninum Samir Noor og Anton heimamanninum Ndubuisi.
MMA Fréttir fylgdu strákunum út og má finna ítarlega umfjöllun þeirra um bardagana hér að neðan: