Flýtilyklar
VIÐ OPNUM AFTUR - SKILABOÐ FRÁ FORMANNI MJÖLNIS
Kæru vinir og iðkendur í Mjölni
Síðustu vikur hafa svo sannarlega verið ólíkar nokkrum öðrum en nú stefnir í að við sjáum til sólar gegnum Covid mistrið. Við hjá Mjölni höfum verið í góðu sambandi við Almannavarnir, embætti landlæknis og aðra þá er að þessum málum koma. Nú er okkur tjáð að við getum hafið starfsemi næstkomandi mánudag, 25. maí, samkvæmt stundatöflu en með nokkrum takmörkunum þó. Fjöldi í tímum verður t.d. takmarkaður og verður forskráning í fjölmennustu tímana en það fyrirkomulag verður kynnt á næstu dögum. Við höfum látið reikna út hversu margir iðkendur geta verið í hverjum sal og búningsklefum til að hægt sé að halda valkvæðu tveggja metra bili og munum miða fjölda út frá því allavega til 15. júní. Hvað þá verður kemur í ljós en það fer að sjálfsögðu eftir fyrirmælum yfirvalda. Við munum t.d. ekki opna gufu og pottasvæði fyrr en í fyrsta lagi eftir 15. júní og barnagæslan verður því miður lokuð í sumar. Í leiðbeiningum stjórnavalda kemur fram að 2ja metra reglan um nándarmörk sé valkvæð, en iðkendur eru beðnir um að virða regluna eins og best má verða. Það gera sér allir auðvitað grein fyrir því að þessari reglu er ekki hægt að fylgja í bardagaíþróttum og þeir sem vilja fylgja henni geta ekki tekið þátt í æfingum nema þá með áhorfi sem þeim er að sjálfsögðu velkomið. Í öðrum greinum, t.d. Víkingaþreki, Yoga, Freyjuafli, Goðaafli, í Gryfjunni, í móttöku, búningsklefum, sturtu og almennum rýmum biðjum við iðkendur okkar að virða valkvæðu 2ja metra regluna eins og frekast er unnt og taka fullt tillit til þeirra sem vilja halda þeirri fjarlægð.
Þá eru einnig skýrar reglur um að hvorki iðkendur né starfsmenn mega koma inn í Mjölni ef þeir:
a. Eru í sóttkví.
b. Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu sýnatöku).
c. Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.
d. Eru með einhver einkenni flensu eða annarra veikinda (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang o.fl.).
Ýmsar valkvæða þjónustu þarf að taka úr umferð, allavega fyrst um sinn, eins og hárþurrkur, kaffiveitingar, suman lánsbúnað, o.fl. Við hvetjum líka þá sem geta að sleppa því að fara í sturtu í Mjölni fyrstu vikurnar í það minnsta og opið verður í gegnum Drukkstofuna, fyrir þá sem vilja fara þar í gegn og beint upp í Hel (Víkingaþreksalinn), líkt og var rétt fyrir lokun.
En við tökum þessu öllu með jafnaðargeði því jákvæðu fréttirnar eru auðvitað þær að við getum byrja að æfa allar íþróttagreinarnar okkar í Mjölni á ný!
Við viljum einnig þakka iðkendum okkar sem lang flestir hafa haldið tryggð við Mjölni á þessum erfiðu tímum. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að ástandið er víða erfitt og tryggð ykkar gerir okkur kleift að halda áfram starfsemi og eins og fram hefur komið mun Mjölnir bæta þeim tíma sem lokað var aftan við áskrift þeirra sem héldu henni virkri.
Og þess má geta að við höfum ekki setið auðum höndun í lokuninni því búið er að laga gólf í Grettisal (glímusalnum), Þórssal (stand up salnum) og Hel (Víkingaþrekssalnum). Auk þess eru komar nýjar dýnur fyrir Víkingaþrekið og við erum að bíða eftir nýjum dýnum fyrir glímuna. Þá höfum við einnig endurnýjað eitthvað af tækjunum í Gryfjunni og víðar.
Með öðrum orðum Mjölnir opnar samkvæmt stundatöflu næstkomandi mánudag 25. maí. Rosalega hlökkum við til að sjá ykkur!!!
Með kærri kveðju,
Gunnar Nelson
formaður Mjölnis