Flýtilyklar
ÚRSLIT Á VÍKINGALEIKUM MJÖLNIS 2015
Víkingaleikar Mjölnis fóru fram í fjórða sinn laugardaginn 17. október síðastliðinn. Alls voru 35 keppendur skráðir til leiks enda til mikils að vinna, m.a. út að borða á Kol, Ginger og Brooklyn bar, vörur frá Lýsi, Óðinsbúð og Sportvörum og síðast en ekki síst, frí æfingagjöld í Mjölni í heilt ár! Keppnin var hnífjöfn og spennandi en keppendur þurftu að sigrast á mörgum athyglisverðum þrautum og þrekraunum. Svo fór að sigurvegari í kvennaflokki var Dóra Sóldís Ásmundardóttir og í karlaflokki var það Benjamín Þorlákur Eiríksson.
Fyrsta brautin samanstóð m.a. af dekkjaburði, ketilbjölluæfingum, beinum höggum, sprawl'i, bóndagöngu ofl. Þeir þrír keppendur sem náðu bestu tímunum í þessari braut fóru í undanúrslitarbrautina en þar tók við hin víðfræga matarþraut sem fellt hefur marga fílhrausta menn og konur. Í bland við það að þurfa borða súrhval, wasabifyllt hrátt hrefnukjöt og skola því niður með hvalablóði þá þurftu keppendur að klifra upp kaðal, spretta, sippa og margt fleira sniðugt og lystaukandi. Það voru þau Benjamín, Benedikt, Dóra og Elísabet sem náðu bestu tímunum og komust því í úrslit. Í úrslitabrautinni hélt veislan áfram en þar þurftu keppendur að spreyta sig á steinaburði eftir að hafa velt dekki og slamma bolta. Steinarnir voru frá 40-58 kg hjá stelpunum og 70-97 kg hjá strákunum. Rúsínan í pylsuendanum var að hlaupa og ná í Mjölnishamarinn sjálfan sem vegur um 20 kg og slátra einni vatnsmelónu til að klára brautina.
Þetta var virkilega skemmtileg keppni í alla staði og stóðu allir keppendurnir sig frábærlega vel í þessum erfiðu þrautum sem sérsniðnar voru af yfirþjálfurum Víkingaþreksins, Gyðu og Steinari.
Myndir frá leikunum má finna á Facebooksíðu Mjölnis. Við hlökkum til næsta árs leika!