Flýtilyklar
UNBROKEN DEILDIN: DAGUR 2 ÚRSLIT
Annar dagur í Unbroken deildinni fór fram á laugardaginn. Það var mikið um frábær tilþrif á mótinu og línurnar farnar að skýrast í flokkunum 14.
Keppt er yfir þrjá keppnisdaga og var þetta annar keppnisdagurinn nú um helgina. Seinast keppnisdagurinn í deildinni er 11. mars en úrslitakvöldið verður síðan í Tjarnarbíói 3. júní. Þar mætast efstu tveir keppendur í hverjum flokki í hreinni úrslitaglímu.
Úrvalsdeild
Í -77 kg flokki karla er Þorsteinn Snær (RVK MMA) enn á toppnum eftir 6 glímur. Vilhjálmur Arnarsson (Mjölnir) kemur fast á hæla hans en hann náði að klára Þorstein um helgina. Það verður mikil spenna á þriðja degi enda gætu allir efstu fimm náð úrslitasæti eftir þriðja keppnisdag. Auk þess verða margar innbyrðis glímur á milli þessar fimm keppanda á síðasta keppnisdegi. Þorsteinn Snær mætir þá Hrafni Þráinssyni (RVK MMA), Brynjólfi Ingvarssyni (Mjölnir) og Breka Harðarsyni (Atlantic) sem allir eiga góðan séns á toppsæti. Þá mætast Brynjólfur og Breki á síðasta degi og verður mjög áhugavert að sjá hvernig taflan lítur út 11. mars.
Helgi Freyr Ólafsson (Mjölnir) og Stefán Fannar Hallgrímsson (Mjölnir) eru báðir með fullt hús stiga í -88 kg flokki karla. Þeir mætast á þriðja og síðasta keppnisdegi og má telja líklegt að þeir endi í efstu tveimur sætunum. Róbert Óliver (Mjölnir), Martyn Quinn (Mjölnir) og Marvin Daði (Brimir) eiga ennþá séns að komast í toppsætið en Róbert og Marvin eiga 4 glímur eftir á meðan Martyn á 5 glímur eftir.
Halldór Logi Valsson (Mjölnir) átti frábæran dag á laugardaginn. Eftir að hafa verið í 4. sæti eftir fyrsta keppnisdag þaut hann upp töfluna með fjórum sigrum nú um helgina. Það verður mikil spenna síðasta daginn í þessum flokki enda geta allir efstu fjórir náð úrslitasæti og eiga allir þrjár glímur eftir.
Það hefur lítið breyst í +99 kg flokki karla eftir keppnisdag tvö. Daði Steinn (VBC) er ennþá langefstur með fullt hús stiga og verður aðal baráttan á síðasta degi hvor kemst með honum í úrslit. Diego Valencia (Mjölnir) og Eggert Djaffer (Mjölnir) eru báðir með 14 stig í 2. og 3. sæti. Þeir hafa mæst tvisvar í deildinni til þessa og hafa báðar þær glímur endað í jafntefli.
Í -60 kg flokki kvenna er Inga Birna (Mjölnir) langefst og er komin með sæti í úrslitum. Auður Olga (Mjölnir) og Kolka Hjaltadóttir (VBC) eiga spennandi baráttu fyrir höndum á þriðja og síðasta keppnisdegi. Þær hafa tvisvar mæst til þessa; Auður sigraði um síðustu helgi en í janúar háðu þær jafntefli.
Í -70 kg flokki kvenna ríkir mikil spenna og eiga allar eftir að glíma fjórar glímur á síðasta keppnisdegi. Ólöf Embla (VBC) er stigi á undan Lilju Guðjónsdóttur (Mjölnir) og kemur Sara Dís (Mjölnir) fast á hæla þeirra. Ólöf mætir Lilju og Söru á síðasta keppnisdegi og þá mætast Sara og Lilja í síðustu glímu flokksins þann 11. mars.
Hér er staðan nokkurn veginn ráðin þar sem Anna Soffía (Sleipnir) hefur unnið allar sínar glímur. Heiðrún Fjóla (Sleipnir) er í 2. sæti og er 6 stigum á eftir Önnu Soffíu.
BYRJENDADEILD
Í þessum flokki eru þrír keppendur að berjast um efstu tvö sætin. Haukur Birgir (Mjölnir) er með fullt hús stiga og Björn Hilmarsson (Mjölnir) kemur þremur stigum á eftir. Sigurður Eggertsson (Mjölnir) kemur þremur stigum á eftir Birni en allir þrír mætast á þriðja keppnisdegi.
-77 kg flokki karla er sennilega sá mest spennandi eftir annan keppnisdag enda mikið um innbyrðis viðureignir framundan hjá efstu þremur sætunum. Sindri Dagur (Mjölnir) er efstur og á tvær glímur eftir. Aron Óli (RVK MMA) á þrjár glímur eftir og er aðeins einu stigi á eftir Sindra. Aron og Sindri mætast á þriðja keppnisdegi og gæti það verið úrslitaglíma um toppsætið. Hlynur Smári á einnig þrjár glímur eftir og mætir Aroni á síðasta keppnisdegi. Hann meiddist þó á ökkla um helgina og er spurningamerki fyrir síðasta keppnisdag. Jóhann Steinn (Mjölnir) á tvær glímur eftir og á góðan séns á úrslitasæti vinni hann síðustu tvær glímurnar sínar en hann er búinn að keppa við Sindra, Aron og Hlyn.
Hér er líka mikil spenna enda gætu allir efstu 6 náð úrslitasæti. Stefán Atli (Brimir) á þrjár glímur eftir en hann á eftir að mæta Arnari Dan (Mjölnir) sem situr í 3. sæti. Elvar Leonardsson á tvær glímur eftir en hann mætir Arnari og Hilmi Dan (World Class) sem koma á eftir honum í 3. og 4. sæti. Staðan gæti breyst mikið eftir síðasta keppnisdag og verður mjög spennandi að sjá glímurnar hér þann 11. mars.
Bragi Þór (Mjölnir) er langefstur hér með fullt hús stiga. Allir eiga fjórar glímur eftir og geta því allir komist í úrslitasæti á síðasta keppnisdegi. Það getur því allt gerst í þessum flokki.
Í +99 kg flokki karla er allt opið. Birgir Steinn er efstur með 16 stig en Mímir og Eiríkur Guðni eru jafnir með 8 stig í 2. og 3. sæti. Úrslitin munu ráðast á síðasta keppnisdegi þar sem allir glíma við alla í flokknum.
Harpa Hauksdóttir (Mjölnir) er komin í úrslit og mun Þórhanna Inga (VBC) að öllum líkindum fylgja henni. Þær hafa mæst tvívegis hingað til og báðar glímar endað með jafntefli. Það verður spennandi að sjá hvernig þriðja glíma þeirra fer þann 11. mars og svo að öllum líkindum aftur í Tjarnarbíói þann 3. júní.
Í -70 kg flokki kvenna er hörku barátta um efsta sætið. Vera Óðinsdóttir (RVK MMA) og Kolfinna Þöll (Mjölnir) eru í úrslitasætunum og hafa mæst tvisvar í deildinni. Þær glímur hafa báðar endað með jafntefli og verður spennandi að sjá þriðju glímu þeirra í mars.
Síðasti keppnisdagurinn er þann 11. mars í Mjölni og er frítt inn.