Flýtilyklar
TVÖFALT GULL Á GOLDEN GIRL
3. júní, 2022
HR/Mjölnir sendi 6 stelpur á The Golden Girl Championship í Svíþjóð á dögunum sem er eitt stærsta kvennaboxmót í heiminum. Yfir 400 kvennaboxarar frá rúmlega 30 löndum kepptu á mótinu.
Þula Gló var að taka sína fyrstu box bardaga á mótinu og byrjaði svo sannarlega með stæl! Þula byrjaði á sigri í undanúrslitum með tæknilegu rothöggi eftir laglegt skrokkhögg. Það var enginn afsláttur gefinn í úrslitum þar sem Þula sigraði aftur með tæknilegu rothöggi og tók því gullið í Junior C flokki. Virkilega vel gert hjá Þulu!
Salka Vífils var líka að keppa sína fyrstu box bardaga. Í sinni fyrstu viðureign vann hún með yfirburðum og fékk einróma sigur eftir dómaraákvörðun. Salka mætti í hringinn fyrir úrslitabardagann en andstæðingurinn ákvað að gefa bardagann þegar í hringinn var komið. Salka tók því gull í Junior C flokki og það á sínu fyrsta móti!
Erika Nótt og Hildur Kristín kepptu báðar í Junior A flokki en það er hæsta level í U-17 ára flokki. Báðar lentu þær á móti reynslumiklum andstæðingum en máttu þola tap eftir mjög jafna bardaga. Frábær frammistaða og góð reynsla.
Sumarrós Lilja keppti í Junior B flokki og var líka að keppa sinn fyrsta bardaga. Sumarrós sýndi að hún ætti fullt erindi á mótið og stóð vel í reyndari stelpu en sigurinn fór að lokum til andstæðingsins. Íris Daðadóttir keppti í Youth C flokki gegn reyndum andstæðingi. Íris veitti henni góðan bardaga og rústaði síðustu lotunni en það dugði ekki til og fékk andstæðingurinn því sína hönd upprétta.
Mögnuð reynsla fyrir efnilegar stelpur á stóru móti enda mikill metnaður og vinna að baki. Framtíðin er afar björt í boxinu á Íslandi og þessar stelpur frábærar fyrirmyndir.