Flýtilyklar
TVÖFALDUR SIGUR Í LIVERPOOL
Okkar menn Birgir Örn Tómasson og Bjarki Pétursson sigruðu báðir andstæðinga sína á Shinobi 10 í Liverpool í kvöld.
Bjarki keppti fyrsta bardaga kvöldsins en þetta var hans fyrsti MMA bardagi. Andstæðingur Bjarka var Joey Dakin sem leit út eins og hann hefði búið í lyftingarsalnum. Það hafði þó enginn áhrif á okkar mann sem mætti gríðarlega sterkur til leiks og sigraði allar loturnar og bardagann á einróma dómaraúrskurði.
Birgir Örn keppti í kvöld í fyrsta sinn sem atvinnumaður í MMA og mætti öflugum andstæðingi í heimamanninum Anthony O’Connor sem er fyrrum áhugamannameistari Shinobi. O'Connor var að berjast sinn annan bardaga sem atvinnumaður en fyrsta bardagann vann hann á síðasta Shinobi keppni í lok nóvember sl. á rothöggi eftir aðeins 28 sekúndur. Birgir og heimamaðurinn skiptust á höggum í byrjun bardagans auk þess sem O'Connor lenti nokkrum lágspörkum á Bigga sem virtust þó ekki hafa nein áhrif á okkar mann sem svaraði heldur betur fyrir sig með góðum hægri krók sem sendi O’Connor í gólfið. Biggi fylgdi eftir með nokkrum höggum í gólfinu áður en dómarinn stöðvaði bardagann eftir aðeins 1:51 mín. í fyrstu lotu. Glæsileg frammistaða hjá Bigga í sínum fyrsta atvinnumannabardaga.