Flýtilyklar
SVONA VERÐA ÚRSLITIN Í UNBROKEN DEILDINNI
Þriðji dagur í Unbroken deildinni fór fram á laugardaginn. Þetta var síðasti dagurinn í deildarkeppninni og eru nú bara úrslitin eftir. Það er nú ljóst hverjir mætast í úrslitum sem haldin verða í Tjarnarbíó þann 3. júní.
Úrvalsdeildin
-77 kg karla
Þetta var einn mest spennandi flokkur mótsins og var síðasti dagurinn æsispennandi. Vilhjálmur Arnarsson endaði í 1. sæti með 26 stig og í 2. sæti var Breki Harðarson. Breki tryggði sér 2. sætið með sigri á Þorsteini Snæ í síðustu umferð þegar skammt var eftir af glímunni en Þorsteinn endaði í 3. sæti tveimur stigum á eftir Breka. Það verða því Vilhjálmur og Breki sem mætast í úrslitum þann 3. júní.
-88 kg karla
Þessi 14 manna flokkur var uppfullur af frábærum glímum en það voru þó tveir keppendur sem báru höfuð og herðar yfir aðra í flokknum – Stefán Fannar og Helgi Freyr. Þeir enduðu báðir með 40 stig eftir 12 sigra og 1 jafntefli. Glíma þeirra endaði með jafntefli um helgina og verður spennandi að sjá þá mætast í hreinni úrslitaglímu þann 3. júní. Róbert Óliver var í 3. sæti með 10 sigra og gerði virkilega vel í sterkum flokki.
-99 kg
Halldór Logi var nánast öruggur með sæti í úrslitum fyrir 3. dag Unbroken deildarinnar svo aðal spennan var um annað sætið. Bjarki Eyþórsson og Bjarni Ká Sigurjónsson börðust um 2. sætið og endaði glíma þeirra í jafntefli. Bjarki Eyþórsson hafnði því í 2. sæti og mætir Halldóri Loga í úrslitum.
+99 kg karla
Daði Steinn var búinn að tryggja sér í úrslit fyrir helgina og var einungis spurning hver myndi fara með honum í úrslit. Eggert Djaffer og Diego Valencia voru jafnir fyrir helgina með 14 stig. Þeir enduðu aftur með jafnmörg stig en Diego náði sæti í úrslitum þar sem hann var með skemmri meðaltíma í sigrum sínum með uppgjafartaki. Daði Steinn og Diego mætast því í úrslitum.
-60 kg kvenna
Það var nokkuð um forföll í þessum flokki um helgina og aðeins Inga Birna og Auður sem mættu. Staðan var því óbreytt frá 3. umferð og verða það því Inga Birna og Auður í úrslitum í Tjarnarbíó.
-70 kg kvenna
Ólöf Embla, Lilja Guðjónsdóttir og Sara Dís voru í efstu þremur sætunum. Því miður var Lilja veik og voru það því þær Sara og Ólöf Embla sem voru stigahæstar eftir helgina. Það verður spennandi að sjá Ólöfu og Söru keppa í júní en báðar viðureignir þeirra í deildinni enduðu með jafntefli eftir hörku glímur.
+70 kg kvenna
Hér mætti aðeins einn keppandi, Hildur María, þar sem aðrir keppendur gátu ekki mætt vegna veikinda og meiðsla. Hildur María fékk því þrjá walkover sigra og kemst í úrslit þar sem hún mætir Önnu Soffíu.
Byrjendadeild
-66 kg karla
Björn Hilmarsson og Bárður Lárusson voru jafnir í 2. sæti eftir deildarkeppnina og náðu ekki að mæta hvor öðrum. Bárður var fjarverandi á 2. degi deildarinnar og Björn fjarverandi um liðna helgi. Báðir fengu því walkover sigra gegn hvor öðrum og voru jafnir með 17 stig. Björn endar þó í 2. sæti þar sem hann var með skemmri meðaltíma í sigrum sínum með uppgjafartaki. Björn var með þrjá sigra með uppgjafartaki (27 sekúndur, 28 sekúndur og 52 sekúndur) en Bárður tvo sigra (32 sekúndur og 1:43).
-77 kg karla
Hér var mikil spenna þar sem nokkuð var um innbyrðis viðureignir hjá efstu þremur keppendum á síðasta degi. Efstu tveir keppendurnir, Aron Óli og Sindri, mættust á síðasta deginum og endaði glíman í jafntefli. Aron Óli sigraði síðan Hlyn Smára sem var í 3. sæti og tryggði sér þar með sæti í úrslitum ásamt Sindra.
-88 kg karla
Stór flokkur en fyrir síðustu umferðina gátu 6 keppendur unnið sér inn í úrslit. Stefán Atli hafnaði í 1. sæti með 26 stig og Hilmir Dan var í 2. sæti með 25 stig. Stefán tryggði sér fyrsta sætið með sigri á Arnari Skúlasyni í síðustu glímu dagsins. Arnar Dan var í 3. sæti aðeins stigi á eftir Hilmi og var spenna á toppnum allan tímann. Stefán og Hilmir mætast í úrslitum en Stefán sigraði Hilmi á degi 2 með uppgjafartaki. Það verður spennandi að sjá hvernig úrslitaglíman fer í júní.
-99 kg karla
Þessi flokkur var einfaldlega ekki nógu góður þar sem fáir mættu alla þrjá keppnisdagana og því lítið um glímur. 6 keppendur voru skráðir í flokkinn og mættu aðeins tveir núna á laugardaginn, Bragi Þór og Kormákur. Bragi Þór sigraði Kormák um helgina með uppgjafartaki en þeir mætast aftur í úrslitum í júní.
+99 kg karla
Það var sama sagan hér og í -99. Tveir keppendur sögðu sig úr mótinu eftir fyrsta dag og Eiríkur Guðni og Birgir Steinn því tveir eftir. Birgir sigraði Eirík á degi 2 en um helgina háðu þeir jafntefli. Eiríkur gat ekki keppt vegna meiðsla á fyrsta degi og því mættust þeir bara tvisvar í deildinni. Þeir mætast í þriðja sinn í júní og hafa því góðan tíma til að halda áfram að bæta sig.
-60 kg kvenna
Hér voru þær Harpa og Þórhanna efstar og það breyttist ekkert eftir helgina. Þórhanna gat ekki keppt um helgina en Harpa fékk fullt hús stiga. Harpa og Þórhanna mættust tvisvar í deildinni og enduðu báðar glímur með jafntefli. Það verður því mjög spennandi að sjá hvernig úrslitaglíman fer í júní.
-70 kg kvenna
Það var full mæting í þennan flokk um helgina og hörku glímur. Vera Óðinsdóttir og Kolfinna Þöll eru komnar í úrslit og verður gríðarlega spennandi að sjá hvernig úrslitaglíman mun fara. Þær mættust þrívegis í deildinni og endaði glíman alltaf með jafntefli. Þetta verður hörku glíma og ein sú mest spennandi.
Þetta verða því úrslitaglímurnar í Tjarnarbíó þann 3. júní.
Úrvalsdeild:
+99 kg karla: Daði Steinn (VBC) vs. Diego Björn Valencia (Mjölnir)
-99 kg karla: Halldór Logi Valsson (Mjölnir) vs. Bjarki Eyþórsson (Mjölnir)
-88 kg karla: Stefán Fannar Hallgrímsson (Mjölnir) vs. Helgi Freyr Ólafsson (Mjölnir)
-77 kg karla: Vilhjálmur Arnarsson (Mjölnir) vs. Breki Harðarson (Atlantic)
+70 kg kvenna: Anna Soffía Víkingsdóttir (Sleipnir) vs. Hildur María Sævarsdóttir (Reykjavík MMA)
-70 kg kvenna: Ólöf Embla Kristinsdóttir (VBC) vs. Sara Dís Davíðsdóttir (Mjölnir)
-60 kg kvenna: Inga Birna Ársælsdóttir (Mjölnir) vs. Auður Olga Skúladóttir (Mjölnir)
Byrjendadeild:
+99 kg karla: Birgir Steinn Ellingsen (Brimir BJJ) vs. Eiríkur Guðni Þórarinsson (Mjölnir)
-99 kg karla: Bragi Þór Pálsson (Mjölnir) vs. Kormákur Snorrason (Mjölnir)
-88 kg karla: Stefán Atli Ólason (Brimir BJJ) vs. Hilmir Dan Gíslason (World Class MMA)
-77 kg karla: Aron Óli Valdimarsson (Reykjavík MMA) vs. Sindri Dagur Sigurðsson (Mjölnir)
-66 kg karla: Haukur Birgir Jónsson (Mjölnir) vs. Björn Hilmarsson (Mjölnir)
-70 kg kvenna: Vera Óðinsdóttir (Reykjavík MMA) vs. Kolfinna Þöll Þórðardóttir (Mjölnir)
-60 kg kvenna: Harpa Hauksdóttir (Mjölnir) vs. Þórhanna Inga Ómarsdóttir (VBC)