Flýtilyklar
SUNNA NÝR KICKBOX YFIRÞJÁLFARI Í MJÖLNI
Mjölnir kynnir með stolti nýjan yfirþjálfara í kickboxi, Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur, en hún er flestum kunn sem Sunna „Tsunami“. Sunna er fyrsta og eina atvinnukona okkar íslendinga í MMA / blönduðum bardagaíþróttum og hefur æft allan sinn bardagaíþróttaferil í Mjölni allt frá árinu 2009 og verið meðlimur í keppnisliði Mjölnis frá árinu 2013.
Árið 2015 varð Sunna hvort tveggja Evrópumeistari í MMA áhugamanna og einnig Evrópumeistari í sínum flokki í brasilísku jiu-jitsu (BJJ). Í apríl 2016 undirritaði Sunna langtímasamning við bandaríska bardagasambandið Invicta FC. Hún er ósigruð á sínum ferli sem atvinnumaður eftir þrjá sigra innan Invicta, alla með einróma dómaraákvörðun. Búast má við að Sunna snúi aftur í búrið á fyrstu mánuðum 2018.
Sunna lauk ÍAK einkaþjálfaranámi í Keili árið 2015 og hefur verið mjög farsæl sem þjálfari einstaklinga og lítilla hópa síðan þá, eitthvað sem hún hefur gert í skorpum samhliða ferli sínum sem bardagakona. Hún hefur jafnframt lokið fjölmörgum sérnámskeiðum sem snúa að styrktarþjálfun, sjálfsvörn, næringu og mataræði.
Rætur Sunnu liggja í Muay-Thai, tælensku kickboxi. Hún dvaldi á eyjunni Phuket í Tælandi í fjóra mánuði árið 2013, æfði þar og keppti fjórar atvinnuviðureignir sem hún vann allar. MMA ferillinn tók við í kjölfarið en kickbox hefur ávalt verið Sunnu hjartans mál og nú er komið að því að hún miðli þekkingu sinni áfram þar sem hún mun nú á haustönn ásamt Hrólfi Ólafssyni annast þjálfun og umsjón með kickboxi í Mjölni auk annarrar þjálfunar.