Flýtilyklar
SUNNA MEÐ SAMNING VIÐ INVICTA FC!
Okkar kona Sunna Rannveig Davíðsdóttir hefur gert samning við MMA sambandið Invicta Fighting Championships sem er stórt bardagasamband í Bandaríkjunum og gert þar langtímasamning. Það eru eingöngu konur sem keppa hjá þessu bardagasambandi en sterk tengsl eru á milli Invicta og UFC. Sunna verður þar með fyrst íslenska kvenna bætast í hóp atvinnumanna í íþróttinni.
Sunna er vel þekkt innan íþróttarinnar, bæði hér heima og á erlendum vettvangi. Hún er meðlimur í keppnisliði Mjölnis og hefur barist 6 sinnum sem áhugamaður í MMA og sigrað 5 af þeim viðureignum. Sunna er jafnframt þrefaldur Íslandsmeistari í brasilísku jiu-jitsu og er núverandi handhafi gullverðlauna frá Evrópumeistaramótinu í sömu íþrótt í sínum flokki og sigraði nýlega bæði sinn flokk og opinn flokk kvenna á Mjölnir Open. Jafnframt er hún ríkjandi Evrópumeistari áhugamanna í MMA í sínum þyngdarflokki. Það kemur því fáum sem til þekkja á óvart að Sunna hafi stigið skrefið yfir í atvinnumennskuna.
Sunna er þrítug og á 11 ára gamla dóttur, Önnu Rakel, sem er helsti stuðningsmaður móður sinnar.
Áhugi Sunnu á bardagaíþróttum hófst fyrir 6 árum síðan er hún byrjaði að æfa tælenskt kickbox / Muay Thai. „Frá fyrstu æfingu þá vissi ég að þetta var það sem mig langaði að leggja áherslu á og ég fann að ég fylltist metnaði og eldmóð. Ég hafði fundið eitthvað sem vísaði veginn til betra lífs og hamingju.“ Stuttu seinna gekk Sunna til liðs við íþróttafélagið Mjölni og hefur verið virkur meðlimur þess allar götur síðan. Árið 2012 hélt Sunna til Tælands, nánar tiltekið til eyjunnar Phuket sem hafði 8 árum áður orðið fyrir flóðbylgju (Tsunami) sem lagði mikið af byggð þar í rúst. Sunna dvaldi á Phuket í hálft ár og stundaði stífar æfingar í slagtogi við atvinnumenn bæði i Muay Thai og MMA. Á meðan á dvölinni stóð keppti hún einnig nokkrar viðureignir og uppskar viðurnefnið „Tsunami“ frá heimamönnum. „Tælendingunum gekk ekkert sérstaklega vel að bera fram nafnið mitt. Einnig var grínast með það í gymminu, þar sem ég æfði, að bardagastíllinn minn líktist flóðbylgju. Einn daginn þá voru allir bara farnir að kalla mig Tsunami. Mér þykir afar vænt um þetta viðurnefni, sérstaklega þar sem heimamenn á Phuket gáfu mér það.“
Sunna kom heim frá Tælandi árið 2013 og hefur varið nær hverjum einasta degi síðan í æfingasal Mjölnis. John Kavanagh aðalþjálfari Gunnars Nelson og Conor McGregor og fleiri kappa er ekki spar á lofgjörðirnar þegar Sunna berst í tal: „Þegar ég kom fyrst til Íslands í æfingaferð fyrir nokkrum árum síðan var ljóshærð, lágvaxin, brosmild og hress stúlka að æfa í Mjölni af slíkum krafti að það var ekki annað hægt en að hrífast af. Í hvert skipti sem ég hef komið síðan hefur hún verið á staðnum, búin að bæta sig gríðarlega og alltaf með sama frábæra viðhorfið. Við grínumst stundum með að það verði að passa áður en skellt er í lás og ljósin slökkt í Mjölni hvort Sunna sé ennþá inni að æfa svo öryggiskerfið fari ekki í gang!“
Haraldur Dean Nelson umboðsmaður Sunnu og framkvæmdastjóri Mjölnis þekkir Sunnu vel og hefur þetta um hana að segja: „Ég held ég geti fullyrt án þess að nokkur móðgist að Sunna sé fremsta bardagakona Íslands. Hún er búin að vera meðlimur í keppnisliðinu hjá okkur síðan 2013 og er öllum öðrum fyrirmynd hvað metnað, vinnusemi og hörku varðar. Að hún sé að fara í atvinnumennsku kemur engum okkar á óvart og það kæmi heldur engum á óvart að hún færi alla leið í heimsmeistarabardaga.“ Og Gunnar Nelson æfingafélagi og vinur Sunnu bætir við: „Við erum búin að æfa svo oft saman. Sunna er einstök manneskja og það eru forréttindi að hafa fengið að fylgjast með því hversu mikið hún hefur þróast og bætt sig sem bardagamaður. Ég hlakka mikið til að styðja hana úr horninu eða salnum.“
Nú á næstu vikum verður tilkynnt um fyrsta bardaga Sunnu undir merkjum Invicta. „Ég er svo til í þetta. Ég hef aldrei verið í betra formi og ég treysti mér til að mæta hverri sem er, hvenær sem er. Þetta er það sem ég er búin að vera að stefna að undangengin ár og nú er loksins að koma að því,“ segir Sunna og John Kavanagh bætir við að það muni „koma öllum í Invicta á óvart hversu hart Sunna leggur að sér. Vinnusemi og dugnaður hennar í bland við það hvað hún er mikill náttúrulegur íþróttamaður gerir það að verkum að hún getur farið alla leið.“
Mjölnir óskar Sunnu innilega til hamingju og við minnum á að hægt er að fylgjast með henni á Facebook síðu hennar: www.facebook.com/sunnatsunami