Flýtilyklar
STEFÁN FANNAR ÆTLAR SÉR STÓRA HLUTI
Stefán Fannar Hallgrímsson er einn af allra efnilegustu glímumönnum landsins. Hann er aðeins 17 ára gamall og er nú þegar kominn kominn meðal fremstu glímumanna landsins.
Stefán Fannar er kominn í úrslit Unbroken deildarinnar þar sem hann mætir liðsfélaga sínum, Helga Frey. Stefán og Helgi voru jafnir í efsta sæti í -88 kg flokki í úrvalsdeildinni en báðir unnu allar sínar glímur og gerðu bara eitt jafntefli. Jafnteflið var einmitt gegn hvor öðrum svo spennan fyrir þeirra glímu er mikil. Við heyrðum aðeins í honum til að kynnast þessum efnilega keppanda.
Hver er íþróttabakgrunnurinn þinn?
Ég byrjaði ungur í fimleikum, flakkaði á milli allra íþrótta en þó mest í körfubolta þar til ég fann MMA í Mjölni sem þróaðist svo í BJJ (brazilian jiu-jitsu) þar sem mér fannst það skemmtilegra.
Þetta var í Covid þar sem ég hafði ekkert að gera og sá fullt af myndböndum af Conor McGregor og Gunna (Nelson) og þar kviknaði áhuginn. Stuttu eftir enn eitt samkomubannið byrjaði ég í unglingastarfinu í Mjölni og hef ekki stoppað síðan þá.
Hvers vegna á þetta sport svo vel við þig? Hvað er það við glímuna sem heillar?
Þetta er bara grind, maður þarf bara að vera að æfa allan daginn, að gera endalaust af sömu hreyfingunum aftur og aftur og ég elska það. Þó maður sé að gera sömu hlutina aftur og aftur, þá eru alltaf nýjar hliðar á sömu hlutunum sem gerir þetta svo skemmtilegt fyrir mig. Ég fann ekki það sama í t.d. körfuboltanum þar sem maður var kannski að gera sömu hlutina aftur og aftur, þá sá ég ekki nýja vinkla á hlutunum eins og ég geri í glímunni þar sem mér finnst ég alltaf sjá eitthvað nýtt í ákveðnum hreyfingum eða stöðum.
Mér finnst þetta líka svo nátturulegt, hvað þetta er mikið fight or flight mode, hefur ekkert annað að hugsa um á meðan maður er í miðri glímu. Maður getur gleymt öllu öðru og einbeitt sér bara að glímunni.
Þegar ég byrjaði þá fór ég á svona fjórar æfingar á dag, það er bara það eina sem ég vildi. Ég varð auðvitað þreyttur, en mér fannst þetta bara svo gaman. Þetta var eins og að fara í vímu án þess að ég hafi prófað það, var bara hooked strax, var alltaf gaman og verð ég að þakka þjálfurunum, sérstaklega Kristjáni Helga, kærlega fyrir að halda utan um mig þegar maður var alveg búinn á því eftir langa daga. Þetta var bara það eina sem ég vildi gera, vildi ekki fara heim eða gera neitt annað en að æfa. Gat ekki ímyndað mér neitt betra að gera.
Þú vannst allar glímurnar þínar nema eina í deildinni. Hvernig fannst þér ganga í deildinni?
Mér fannst bara ganga ágætlega í deildinni. Ég er ekki ósáttur, sumir hlutir hefðu getað gengið betur en ég er kominn í úrslit og það skiptir höfuð máli. Af öllum glímunum mínum fannst mér Helga glíman skemmtilegust og ganga best í henni þó þetta hafi verið eina glíman sem ég náði ekki að vinna. Hinar glímurnar sem ég vann voru kannski ekki eins tæknilega góðar hjá mér, ég náði bara lásunum og kláraði en Helga glíman var svo skemmtileg.
Í Unbroken deildinni var keppt yfir þrjá keppnisdaga í janúar, febrúar og mars og því stutt á milli keppnisdaga. Hvernig fannst þér að keppa svona oft á stuttum tíma?
Það hentaði mér mjög vel, þá venst maður tilfinningunum sem koma þegar maður er að keppa. Þegar það er löng pása á milli móta þá verður meiri kvíði og hræðsla við stressið. En þegar maður er alltaf að keppa þá birtist það ekki, þá er maður bara spenntur því þá veit maður hvað maður er að fara út í.
Hvernig líst þér á að keppa við Helga?
Það er hype! Ég og Helgi höfum glímt oft, en bara einu sinni í keppni og þá endaði glíman með jafntefli. Helgi er einn af mínum uppáhalds æfingafélögum og andstæðingum, þannig að það verður gaman að fá að keppa við hann aftur. Gaman að gera þetta í Tjarnarbíó þar sem verður alvöru show.
Hvað mega áhorfendur búast við að sjá á úrslitakvöldinu?
Áhorfendur mega búast við sigri og flottri glímu. Þetta verða bardagalistir í allri sinni dýrð.
Hvernig finnst þér glíman á Íslandi og hversu hátt stefniru?
Ég er bara búinn að vera partur af glímunni mjög stutt, en finnst þetta alltaf vera að stækka hvert einasta ár. Fólk er farið að taka betur eftir þessu og sjá hvað það getur grætt á að vera að glíma. Markmiðið mitt er bara að verða besti glímumaður Íslandssögunnar, betri en Kristján Helgi, Gunnar Nelson og bara allir. Ætla mér að vinna ADCC einn daginn.