Flýtilyklar
SIGUR OG TAP Á NORÐUR-ÍRLANDI - SILFUR Í SVÍÞJÓÐ
Þrír keppendur frá Mjölni kepptu á glímumótum erlendis í dag. Halldór Logi Valsson og Kristján Helgi Hafliðason kepptu á Chaos Grappling Championship á Norður-Írlandi og Brynjólfur Ingvarsson í Battle of Stockholm.
Halldór Logi og Kristján Helgi er staddir í Dublin við æfingar þessa dagana með Gunnari Nelson sem undirbýr sig nú fyrir UFC bardagann gegn Claudio Silva. Gunnar var að sjálfsögðu í horninu hjá strákunum í dag.
Kristján Helgi Hafliðason mætti William Timoney í -98 kg nogi glímu. Kristján, sem er svart belti undir Gunnari Nelson, hefur unnið öll þessi helstu mót hér á landi ásamt því að sigra erlendis ofurglímur á Battle Grapple og Samurai Grappling. Þessi glíma var engin undantekning frá því. William sótti í byrjun frá botni en Kristján varðist vel og náði fljótt undirtökum í glímunni. Hann náði bakinu á William og uppúr því sótti hann í armbar sem William átti engin svör við og tappaði út. Frábær glíma hjá Kristjáni Helga og afar sannfærandi sigur.
Halldór Logi Valsson mætti Ellis Younger í aðalglímu kvöldsins þar sem keppt var um -88 kg nogi titil Chaos Grappling. Halldór er einnig svart belti undir Gunnari Nelson og hefur náð góðum árangri erlendis á glímumótum svo sem á SubOver 80, NAGA, Samurai Grappling, ADCC trials og keppti á Polaris 2019. Það stóð tæpt að Halldór þyrfti að draga sig út úr glímunni vegna meiðsla sem hann varð fyrir á innraverðu læri í síðustu viku en hann ákvað að láta slag standa og keppa engu að síður. Halldór hafði áður mætt Younger og þá sigraði Halldór með fótalás en nú náði Ellis hins vegar hefndum og sigraði í hörku glímu með RNC.
Í Svíþjóð fyrr í dag keppti síðan Brynjólfur Ingvarsson í Battle of Stockholm í -77 kg advanced flokki, en hann er brúnt belti undir Gunnari. Brynjólfur komst í úrslit eftir tvo sigra en þurfti að sætta sig við tap í úrslitum eftir fljúgandi armbar.