Flýtilyklar
OPINN FRÆÐSLUFUNDUR Í MJÖLNI UM HEILAHRISTING
Mjölnir stóð í gær fyrir afar vel sóttum almennum fræðslufundi um heilahristing í íþróttum, viðbrögð og mögulegar afleiðingar. Mjölnir er fyrsta íþróttafélagið til að standa fyrir fræðslu um þessi mál. Þær Hafrún Kristjánsdóttir Ph.D íþróttafræðingur og María Jónsdóttir Ph.D. taugasálfræðingur fluttu erindi á fundinum og fræddu þátttakendur um hugsanlegar afleiðingar heilahristings og viðbrögð við honum.
Eitt af því sem fram kom var að bardagaíþróttamenn eru oft mun meðvitaðri um afleiðingar slíkra áverka en aðrir íþróttamenn þó heilahristingur sé síst óalgengari í mörgum öðrum íþróttum. Hafrún benti á að almenn vitundarvakning hafi orðið um áhrif heilahristings í íþróttum. Jafnframt hrósaði hún Mjölni fyrir framtakið að óska eftir þessum fræðslufyrirlestri því oft sé tilhneiging hjá þeim sem eru í íþróttum að hlusta ekki á hver möguleg áhrif af heilahristing eru á líf einstaklinga. Sagði hún Mjölni sýna mikla ábyrgð með þessu framtaki sem væri til fyrirmyndar og sagðist vonast til að önnur íþróttfélög tækju upp sömu stefnu.
Fullt var út úr dyrum á fundinum og mátti þar m.a. sjá mörg þekkt andlit úr íþróttaheiminum á Íslandi.