Flýtilyklar
MMA ÆFINGABÚÐIR Í FEBRÚAR
Á annan tug af írskum MMA bardagamönnum stefna á að koma til Íslands í febrúar til að taka æfingabúðir í Mjölni. Meirihlutinn af hópnum mun berjast á Bellator 217 bardagakvöldinu þann 23. febrúar í Dublin.
SBG á Írlandi og Mjölnir hafa verið í nánu samstarfi allt frá stofnun Mjölnis. Bardagamenn frá okkur hafa farið til Írlands til að æfa og þeir írsku komið hingað til lands til að æfa. Í byrjun febrúar mun hópur írskra MMA keppnismanna koma hingað í tveggja vikna æfingabúðir fyrir Bellator 217 en þar verður John Kavanagh, yfirþjálfari Gunnars Nelson og yfirþjálfari SBG á Írlandi, með 13 keppendur á kvöldinu. Það verður því nóg um að vera hjá honum. Stefnan er að taka síðustu tvær vikur æfingabúðanna í Mjölni en þær hófust í SBG á Írlandi í janúar. Síðasta vikan verður síðan róleg heima í Dublin rétt fyrir bardagana eins og hefðin er.
Meðal þeirra sem koma hingað til lands er James Gallagher, sem þekkir vel til á Íslandi og í Mjölni, því hann hefur margoft komið hingað til lands til æfa. Gallagher verður í aðalbardaganum á Bellator 217 en hann mætir Steven Graham í bantamvigt.