MIKAEL KOMINN Í UNDANÚRSLIT Á HEIMSBIKARMÓTINU

MIKAEL KOMINN Í UNDANÚRSLIT Á HEIMSBIKARMÓTINU
Mikael Aclipen

Mikael Aclipen er kominn í undanúrslít á Heimsbikarmóti áhugamanna í MMA, sem fer fram í Prag þessa dagana, eftir að hafa unnið tvo andstæðinga nokkuð örugglega.

Þetta er í fyrsta sinn sem IMMAF (alþjóðlega MMA sambandið) heldur heimsbikarmót en hafa haldið heimsmeistaramót frá 2015 og munu halda slíkt í nóvember. Þeir Mikael Leó og Aron Franz Bergmann keppa á mótinu fyrir Íslands hönd en þeir eru báðir í Mjölni. Aron sem keppti í fjaðurvigt féll úr leik í gær eftir tap gegn Norðmanni en Mikael sem keppir í bantamvigt sigraði í 16-manna úrslitum sterkan Úkraínumann sem varð Evrópumeistari í Combat Sambó 2019.

Mikael keppti því í 8-manna úrslitum í dag þar sem hann mætti Marek Zachar frá Slóvakíu en þetta var fyrsti bardagi Marek á mótinu þar sem hann sat hjá í fyrstu umferð. Mikael ætlaði greinilega að taka þetta snemma í gólfið og fór strax í fellu sem hann náði. Í gólfinu valdi hann höggin sín vel, notaði mjaðmirnar vel til að núlla út ógnir Slóvakans og var mjög öruggur ofan á.

Í 2. lotu var það sama upp á teningnum en Mikael náði enn fleiri höggum inn úr betri stöðum í gólfinu. Mikael því búinn að vinna báðar loturnar og má færa rök fyrir því að 2. lota hafi verið skoruð 10-8 Mikael í vil, slíkir voru yfirburðirnir.

Slóvakinn vissi því áður en 3. lota byrjaði að hann þyrfti að klára til að eiga von á sigri. Hann byrjaði því geyst og sveiflaði villt í von um að ná rothöggi en Mikael svaraði í sömu mynt, lenti góðum höggum og spörkum áður en hann skaut aftur í fellu. Slóvakinn greip um höfuð Mikael í von um að ná „guillotine“ hengingu en Mikael varðist vel og var aldrei í hættu þó Slóvakinn hafi haldið hengingunni í um það bil mínútu. Mikael kláraði bardagann ofan á gólfinu þar sem hann lét höggin áfram dynja á Slóvakanum.

Mikael vann því allar þrjár loturnar mjög örugglega og sannfærandi sigur í höfn. Hann er því kominn í undanúrslit og mætir á morgun gríðarlega sterkum ríkjandi Evrópumeistara, Otabek Rajabov. Rajabov gjörsigraði grískan andstæðing sinn í dag og er talinn mun sigurstranglegri enda eins og áður segir gullverðlaunahafi frá Evrópumótinu sem var núna í ágúst. Okkar maður er hins vegar hvergi banginn og á framtíðina fyrir sér í íþróttinni en þess má geta að Mikael varð 18 ára núna í ágúst og er því rétt kominn á aldur í Junior (U21) flokkinn og á því þrjú ár eftir í þeim flokki. Bardaginn á morgun verður í beinni á IMMAF.TV og verður um 9 leitið í fyrramálið.

 


MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar og miðvikudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:00 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 og fös. til 20:00.

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 mínútum á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði