Flýtilyklar
KRISTJÁN HELGI MEÐ GLÆSILEGA FRAMMISTÖÐU Á BATTLE GRAPPLE
Kristján Helgi Hafliðason keppti á Battle Grapple glímukvöldinu fyrr í dag. Kristján kláraði Nick Forrer með armlás þegar glíman var um það bil hálfnuð.
Battle Grapple var með sinn sjötta glímuviðburð í dag. Kristján Helgi var í 5. glímu dagsins og mætti hann svartbeltingnum Nick Forrer í 10 mínútna nogi glímu.
Forrer settist strax niður (e. guard pull) og reyndi Kristján að komast framhjá löppunum. Kristján náði tvisvar að komast framhjá löppunum en náði ekki að koma sér almennilega fyrir í stöðunni. Kristján náði síðan að taka bakið á Forrer þegar tæpar tvær mínútur voru búnar af glímunni.
Kristján hélt bakinu vel og reyndi að komast undir hökuna á Forrer til að ná hengingunni. Forrer varðist þó vel en átti erfitt með að sleppa úr stöðunni. Kristján skipti þá yfir í kimura og þaðan í armlás. Forrer neyddist til að tappa út og sigraði því Kristján með uppgjafartaki.
Virkilega vel gert hjá Kristjáni en Forrer er gott svart belti í Englandi og kom þessi sigur nokkuð á óvart – þá sérstaklega hversu sannfærandi sigurinn var!
Upphaflega átti Halldór Logi Valsson einnig að keppa á mótinu en andstæðingur hans meiddist í vikunni. Battle Grapple tókst ekki að finna andstæðing fyrir hann í tæka tíð en báðum hefur verið lofað að fá andstæðing á næsta viðburði Battle Grapple.