Flýtilyklar
KRISTJÁN HELGI GRÁÐAÐUR Í SVART BELTI
Kristján Helgi Hafliðason fékk á föstudaginn svarta beltið í brasilísku jiu-jitsu. Kristján er næst yngsti Íslendingurinn til að fá svarta beltið í BJJ á eftir Gunnari Nelson en Kristján er aðeins 22 ára gamall og það var einmitt Gunnar Nelson sem gráðaði hann.
Kristján byrjaði í unglingastarfinu hjá okkur 14 ára gamall og höfum við fengið að sjá hann vaxa úr grasi hér á dýnunum. Hann hefur farið úr því að vera fremur smávaxinn unglingur sem fann sig ekki í öðrum íþróttum yfir í að vera einn af bestu glímumönnum landsins. Nú tekur hann sjálfur þátt í að móta glímufólk framtíðarinnar enda er hann einn af þjálfurunum í barna- og unglingastarfinu hjá okkur.
Íslandsmeistaratitlarnir eru margir og það í bæði unglinga- og fullorðinsflokkum og m.a. vann Kristján Helgi opna flokkinn og sinn flokk á Mjölnir Open á árinu og varð einnig Íslandsmeistari. Nú er Kristján Helgi farinn að keppa meira á erlendum vettvangi en hann hefur unnið tvær ofurglímur erlendis á árinu gegn svartbeltingum. Þá fyrri á Battle Grapple og þá seinni á Samurai Grappling um síðustu helgi. Það verður fróðlegt að fylgjast með honum bæði hér og erlendis á næstu árum. Við óskum Kristjáni Helga innilega til hamingju með árangurinn.
Alls voru 11 ný belti gráðuð í jólajárnuninni á föstudaginn. Þau Kristján Gunnar, Magnús Torfi, Katrín Ólafsdóttir, Stefán Hafsteinson, Jeremy Aclipen og Árni Ehmann fengu fjólublátt belti; Sindri Snær, Kári Jóhannesson, Anikó Volentics og Mikael Aclipen fengu blátt belti. Virkilega skemmtileg járnun og sérstaklega gaman að sjá feðgana Jeremy og Mikael fá belti á sama tíma! Myndir af gráðuninni á Facebooksíðu Mjölnis.
Hér að neðan má svo sjá nokkrar myndir af Kristjáni Helga í Mjölni gegnum árin.