Flýtilyklar
ÍSLENDINGAR HAFA LOKIÐ ÞÁTTTÖKU Á HM ÁHUGAMANNA Í MMA
Ísland er úr leik á HM áhugamanna í MMA í ár en þriðji dagur leikanna var í dag. Björn Þorleifur Þorleifsson og Ingibjörg Helga Arnþórsdóttir voru komin í 8 liða úrslit í sínum flokkum en þurftu bæði að játa sig sigruð í dag. Björn á armlás og Ingibjörg á dómaraúrskurði. Bæði mættu þau öflugum andstæðingum. Björn mætti tvöföldum Evrópumeistara bæði þessa árs og í fyrra, Ítalanum Dario Bellandi, og Ingibjörg mætti ríkjandi Asíumeistara, Nurzhamal Sadykova frá Kasakstan.
Halldór Logi Valsson og Kári Jóhannesson féllu út í gær og þeir Ásgeir Marteinsson og Oliver Axfjörð Sveinsson á mánudaginn. Íslenski hópurinn kemur ekki heim með verðlaun af Heimsmeistaramótinu í ár en verður reynslunni ríkari.
Keppendur frá Íslandi voru fimm í flokki fullorðinna og einn í U21. Íslensku keppendurnir voru:
Ásgeir Marteinsson (Mjölnir) – Bantamvigt (-61 kg)
Kári Jóhannesson (Mjölnir) – Veltivigt (-77 kg)
Björn Þorleifur Þorleifsson (Mjölnir) – Millivigt (-84 kg)
Halldór Logi Valsson (Mjölnir) – Léttþungavigt (-93 kg)
Oliver Sveinsson (Mjölnir) – Fjaðurvigt (-66 kg): HM Ungmenna
Fyrstur af Íslendingunum á mótinu í ár var Oliver Axfjörð Sveinsson sem keppti eins og fyrr sagði á HM ungmenna (U21 ára) í fjaðurvigt (66 kg) og mætti Louis Lee Scott frá Englandi. Því miður tapaði Oliver með tæknilegu rothöggi eftir 2:59 í 1. lotu. Scott er 9-0 sem áhugamaður í MMA á meðan þetta var fyrsti áhugamannabardagi Olivers. Þá er Lee 47-5-2 í Muay Thai og var því töluverður reynslumunur á þeim. Þess má geta að tæknilegt rothögg er þegar dómarinn stígur inn og stöðvar bardagann þar sem hann telur annan keppandann vera það mikið undir í bardaganum. Mun minna þarf til þess að slíkt sé gert í áhugamanna bardaga en í keppni atvinnumanna.
Næstur af Íslendingunum var Ásgeir Marteinsson. Hann keppti í 61 kg bantamvigt en þetta var einnig hans fyrsti MMA bardagi. Ásgeir mætti Jonny Touma frá Svíþjóð (2-3 fyrir bardagann) en tapaði eftir einnig tæknilegt rothögg eftir 1:22 í 2. lotu.
Sá þriðji í röðinni var Kári Jóhannesson í veltivigt (77 kg). Hann mætti Tomáš Pertl frá Tékklandi (6-0 fyrir bardagann) en þetta var fyrsti MMA bardagi Kára. Bardaginn var mjög jafn og spennandi og fór allar þrjár loturnar þar sem Kári sigraði eftir klofna dómaraákvörðun. Frábær frammistaða hjá Kára gegn mun reyndari andstæðingi. Kári komst því áfram í 16-manna úrslit, sem fram fóru í gær, en þar mætti hann Isakov Isa (12-2 fyrir bardagann) frá Belgíu. Isa tók silfur á Evrópumótinu í MMA fyrr á þessu ári og er einn af þeim sigurstranglegustu í flokknum. Þar mætti Kári ofjarli sínum og sigraði Isa eftir armlás í 2. lotu. Góð reynsla fyrir hinn 21-árs gamla Kára.
Björn Þorleifur keppti í millivigt á mótinu en hann mætti Aravind Veeranna (3-0 fyrir bardagann) frá Indlandi. Það tók Björn aðeins 12 sekúndur að klára Veeranna! Björn er þekktur fyrir rosaleg spörk og má sjá hann taka glæsilegt snúningsspark í neðangreindu myndbandi:
Í gær mætti Björn Þorleifur hinum þýska Waldemar Holodenko. Þjóðverjinn reyndi að taka Björn niður en Björn varðist vel. Í 3. lotu tókst Birni að enda ofan í gólfinu þar sem hann náði að klára með svokallaðir „arm-triangle“ hengingu í 3. lotu. Björn var því kominn áfram í 8 manna úrslit og mætti gríðalega öflugum andstæðingi á dag, tvöföldum Evrópumeistara, Ítalanum Dario Bellandi. Bellandi er 11-1 sem áhugamaður og var Evrópumeistari áhugamanna 2017 og 2018 en hann er talinn einn af þeim sigurstranglegri í flokknum. Þeir Björn og Bellandi þreyfuðu fyrir sér standandi en Björn tók svo Ítalann niður eftir að hafa gripið spark. Í gólfinu var Bellandi með nokkur þung högg af bakinu og fór í omaplata axlarlás en skipti svo snöggt yfir í armlás með þeim afleiðingum að Björn þurfti að tappa út í 1. lotu. Mótið þar með búið í ár hjá íslenska hópnum. Björn fékk þrjá bardaga á mótinu og er nú 4-2 sem áhugamaður í MMA.