Flýtilyklar
GUNNAR NELSON MEÐ ÖRUGGAN SIGUR Í LONDON
Okkar maður Gunnar Nelson mætti Bandaríkjamanninum Alan Jouban í UFC London í gærkvöldi. Skemmst er frá því að segja að Gunnar sigraði mjög örugglega með henginartaki eftir 46 sekúndur í 2. lotu.
Gunnar tók strax í upphafi stjórnina í bardaganum og lét Alan bakka allan tímann. Hann reyndi svo fellu og náði Alan niður í annarri tilraun þaðan sem Gunnar fór í „side control“ og svo í „mount.“ Alan varðist þó vel og Gunnar náði ekki mörgum inn en hótaði „arm-triangle“ um tíma. Alan ætlaði greinilega ekki að gefa á sér bakið og kláraði Gunnar lotuna ofan á í „mount“ eftir að hafa náð nokkrum höggum inn undir lok lotunnar.
Í byrjun 2. lotu ætlaði Alan að pressa á Gunnar sem svaraði með góðri gagnsókn og tók aftur völdin í búrinu. Gunnar kom síðan með leiftursnögga beina hægri sem vankaði Alan og Gunnar fylgdi því eftir með hásparki. Hann dróg síðan Alan niður og kláraði hann með „guillotine“ henginu eftir 46 sekúndur í 2. lotu eins og áður segir. Mögnuð frammistaða hjá Gunnari!