Flýtilyklar
GUNNAR MÆTIR LIFANDI GOÐSÖGN Á UFC 194
Nú er það ljóst að Gunnar Nelson mætir Demian Maia á UFC 194 í MGM Arena í Vegas hinn 12. desember næstkomandi. Demian Maia er af flestum talinn besti glímumaður í veltivigtinni í UFC og þó víðar væri leitað en hann er númer 6 á styrkleikalista sambandsins en Gunnar er númer 11 á sama lista. Þá er Maia númer 7 á heimslista Fight Matrix en þar er Gunnar í 17. sæti.
Maia er fimmfaldur heims- og heimsbikarmeistari í uppgjafarglímu, Suður-Ameríkumeistari og Brasilíumeistari svo fátt eitt sé talið en hann er með 4.gr. svart belti í brasilísku jiu-jitsu. Hann á 27 atvinnumannabardaga að baki í MMA (blönduðum bardagaíþróttum) þar af 21 innan UFC.
Maia hóf ferilinn í millivigt og barðist meðal annars um millivigtartitilinn við Anderson Silva, sem varði titill 10 sinnum eða oftar en nokkur annar meistari innan UFC. Bardagi Maia og Silva fór í dómaraúrskurð sem féll meistaranum í vil en aðeins tvær af titilvörun Silva fóru í dómaraúrskurð. Eftir af hafa tapað aftur á dómaraúrskurði fyrir núverandi millivigtarmeistara UFC, Chris Weidman, flutti Maia sig í veltivigtina þar sem hann hefur aldrei verið stöðvaður heldur aðeins tapað á dómaraúrskurði. Hann hefur m.a. sigrað þekkta MMA kappa í veltivigt UFC eins og Jon Fitch (sem keppti um UFC titilinn á sínum tíma) og þá kláraði þá Dong Hyun Kim (númer 7 á heimslistanum) á tæknilegu rothöggi í fyrstu lotu og Rick Story (númer 10 á heimslistanum) á hengingu, einnig í fyrstu lotu, en Story er Íslendingum vel kunnur enda sigraði hann Gunnar Nelson á klofnum dómaraúrskurði í Stokkhólmi í fyrra.
Alls hefur Maia unnið 6 bara í veltivigtinni þar tvo á þessu ári. Hann sigraði Ryan LaFlare í mars en það var fyrsta tap LaFlare á ferlinum en fyrir það hafði hann unnið 11 bardaga. Þá stöðvaði Maia einnig sigurgöngu Neil Magny í UFC í síðasta mánuði ef fyrir bardagann hafði Magny unnið 7 bardaga í röð í veltivigtinni en var aldrei nálægt því að bæta þeim áttunda við gegn brasilíska meistaranum. Maia hafði algjöra yfirburði og var ná Magny í lás í fyrstu lotu þegar bjallan glumdi. Það var þó skammgóður vermir fyrir Magny því Maia tók hann strax niður í byrjun annarrar lotu og neyddi hann til uppgjafar með hengingartaki. Maia fékk frammistöðuverðlaun kvöldsins (Perfomance of the Night) fyrir sigurinn á Magny en það var í sjötta sinn sem hann hlaut þau verðlaun á bardagakvöldi hjá UFC.
Það er því von á gríðarlega spennandi kvöldi í Vegas 12. desember.
Fréttir um bardagann á nokkrum vefmiðlum:
- Gunnar fær risabardaga í Las Vegas - VÍSIR
- Gunnar : Öruggur sigur gæti komið mér í umræðu um titilbardaga - VÍSIR
- Gunnar mætir Brasilíumanni í Vegas - MBL
- Gunnar Nelson mætir Demian Maia í desember - MMA FRÉTTIR
- Friðsæli stríðsmaðurinn Demian Maia - MMA FRÉTTIR
- Gunnar Nelson mætir Demian Maia - PRESSAN
- Gunnar Nelson berst við einn besta veltivigtarmann heims í Las Vegas í desember - NÚTÍMINN