Flýtilyklar
GLÆSILEGUR SIGUR GUNNARS Á STÆRSTA UFC FRÁ UPPHAFI
Eins og alþjóð veit þá áttu Mjölnismenn fulltrúa (sumir myndu segja þrjá fulltrúa) á UFC 189 sem fram fór í MGM Grand Arena í Vegas laugardaginn 11. júlí síðastliðinn. Þetta var stærsta keppni UFC frá upphafi en þar mætti Gunnar Nelson hinum ógnvænlega bandaríska striker Brandon Thatch í einum af fimm aðalbardögum kvöldsins. Eins og flestir vita átti Gunnar að mæta Englendingnum John Hathaway en hann varð að draga sig út úr bardaganum vegna meiðsla tæpum þremur vikum fyrir keppni. Í hans stað kom Brandon Thatch en hann átti að mæta John Howard í sömu keppni. Vinur okkar Írinn Cathal Pendred mætti síðan Howard í staðinn en tapaði naumlega á klofnum dómaraúrskurði. Aðalbardagin kvöldsins var svo viðureign annars írsks vinar okkar, Conor McGregor, við Bandaríkjamanninn Chad Mendes um bráðabirgðarbeltið í fjaðurvigtinni sem Conor sigraði á tæknilegu rothöggi seint í annarri lotu.
Allir veðbankar spáðu Brandon Thatch sigri gegn Gunnari en Brandon hafði verið spáð miklum frama í UFC með 11 sigra í MMA og alla í fyrstu lotu, þar af 8 rothögg, 4 á innan við 20 sekúndum og 6 á innan við mínútu. Eina tapið hans í UFC hafði komið gegn Benson Henderson fjórföldum UFC meistara en sá sigur kom í 4. lotu eftir hengingatak í jöfnum bardaga þar sem Brandon hafði síst átt minna í viðureigninni. Brandon Thatch er jafnframt einn sá stærsti í veltivigtinni og gríðarlega höggþungur, meðan Gunnar er einn léttasti veltivigtarmaður UFC ef ekki sá léttasti. Þá sagðist Brandon í viðtölum aldrei hafa verið í betra formi á ferlinum eða betur undirbúinn.
En ekkert af þessu angraði Gunnar sem einnig kom inn í bardagann í sínum besta formi hingað til og það tók hann aðeins eina og hálfa mínútu að lenda glæsilegri flettu á Brandon Thatch, vinstri krók sem hann fylgdi eftir með beinni hægri sem sendi Brandon beinustu leið í gólfið.
Gunnar fylgdi Brandon eftir í gólfið og þar var þetta leikur kattarins að músinni. Brandon átti ekkert svar við gólfglímu Gunnars sem fór úr mount, í side control og aftur í mount á sama tíma og hann lenti hverju högginu á fætur öðru á Brandon. Í örvæntingu reyndi Brandon að snúa sér við til að sleppa en fór þá úr öskunni í eldinn þar sem Gunnar tók bakið á honum og læsti inn svokölluðum body triangle.
Eftir að Gunnar var kominn með bakið á Brandon tók það okkar mann aðeins 30 sekúndur að hengja Bandaríkjamanninn með RNC og sigra bardagann á 2:54 mínútu í fyrstu lotu.
Þetta er án efa stærsti sigur Gunnars á ferlinum og jafnframt hans sneggsti sigur í UFC frá upphafi. Við óskum honum og Mjölnismönnum öllum innilega til hamingju.