Flýtilyklar
BOLAMÓTIÐ FER FRAM 22. SEPTEMBER
Þann 22. september fer Bolamótið 2 fram. 10 ofurglímur eru á dagskrá þar sem aðeins er hægt að vinna með uppgjafartaki.
Bolamótið fór fram í fyrsta sinn í febrúar á þessu ári og var mikið sjónarspil fyrir áhorfendur. Keppt er undir EBI reglum en einungis er hægt að vinna með uppgjafartaki og er því engin stigagjöf. Síðast þegar mótið var haldið sáum við Sighvat Magnús Helgason sigra UFC-bardagamanninn Tom Breese í aðalglímu kvöldsins.
Nú verður mótið aftur á dagskrá en að þessu sinni verður það Halldór Logi Valsson sem mætir Bretanum Ben Dyson í aðalglímu kvöldsins. Halldór Logi hefur verið að gera frábæra hluti á glímumótum hérlendis og erlendis á síðustu misserum en hann er svart belti undir Gunnari Nelson. Halldór var í bestu glímu kvöldsins á síðasta Bolamóti þegar hann kláraði Bjarna Kristjánsson í frábærri glímu.
Ben Dyson er svart belti í brasilísku jiu-jitsu frá Englandi og hefur keppt víðsvegar um heiminn en þar á meðal á Polaris glímukvöldunum. Þrír Englendingar munu koma sérstaklega hingað til lands til að keppa á mótinu en auk Dyson munu þeir Tom Caughey og Liam Corrigan mæta glímumönnum úr röðum Mjölnis.
Miðasala er á Tix.is en hér til hliðar má sjá glímurnar sem verða á dagskrá í september. Þrír atvinnumenn í MMA keppa á kvöldinu, tvær bestu glímukonur landsins, fjórir svartbeltingar keppa og er þetta viðburður sem bardagaaðdáendur ættu ekki að missa af.