Flýtilyklar
BJÖRN LÚKAS MEÐ GLÆSILEGAN SIGUR Í DUBAI
Björn Lúkas Haraldsson náði glæsilegum sigri á Reign MMA bardagakvöldinu um liðna helgi í Dubai. Björn kláraði bardagann með armlás í 1. lotu.
Á meðan starfsmenn og iðkendur Mjölnis skemmtu sér á árshátíð var Björn Lúkas upptekinn við að berjast í Dubai. Björn ferðaðist til Dubai ásamt Luka Jelcic, yfirþjálfara MMA liðsins, og voru þeir Luka og John Kavanagh í horninu hjá Birni.
Björn var í næstsíðasta bardaga kvöldsins en þetta var fyrsti viðburður Reign MMA. Um áhugamannabardaga var að ræða en Björn Lúkas hafði ekki keppt síðan hann tók silfur á Heimsmeistaramóti áhugamanna 2017.
Á HM 2017 fór Björn hamförum og kláraði fjóra bardaga á fjórum dögum og hélt hann uppteknum hætti í Dubai. Björn mætti Michel Pezda í næstsíðasta bardaga kvöldsins en fyrir bardagann var Pezda með bardagaskorið 15-6 sem áhugamaður en Björn Lúkas 6-1.
Björn var ekki í miklum vandræðum með andstæðinginn en eftir smá standandi viðureign náði Björn gullfallegu kasti og komst strax í „mount“. Björn hélt stöðunni í smá tíma en fór svo í armlás og neyddist Pezda til að gefast upp. Virkilega flottur og flekklaus sigur.
Björn mun líklegast keppa atvinnubardaga næst en í samtali við MMA Fréttir sagði Björn nánar frá áhugaverðu ferðalagi sínu í Mið-Austurlöndum.