Flýtilyklar
BARNA- OG UNGLINGASTARF FELLUR NIÐUR VEGNA VEÐURS
9. desember, 2019
Í samræmi við tilmæli Reykjavíkurborgar fellur allt barna- og unglingastarf Mjölnis niður á morgun, þriðjudaginn 10. desember, vegna væntanlegs ofsaveðurs. Þá verður barnagæslan einnig lokuð. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um aðra lokun en svo gæti farið að Mjölnir myndi loka alfarið eftir hádegi á morgun ef yfirvöld mælast til þess. Vinsamlegast fylgist með frekari tilkynningum.
Í tilkynningu Reykavíkurborgar kemur fram að allt frístunda- og félagsmiðstöðvastarf í Reykjavík falli niður þar sem gefin hafi verið út appelsínugul viðvörun vegna óveðursins sem spáð er. Þá munu sundlaugar, útibú Borgarbókasafnsins og söfn á vegum Reykjavíkurborgar verða lokuð eftir kl. 14 á morgun, þriðjudag. Lokanir skóla og stofnana séu tilkomnar vegna öryggisráðstafana enda ætti enginn að vera á ferli í veðri eins og spáð er. Fólk er beðið um að fylgjast vel með veðri í fjölmiðlum og fylgja tilmælum yfirvalda. Appelsínugul viðvörun þýðir að það séu miðlungs eða miklar líkur á veðri sem geti valdið miklum samfélagslegum áhrifum, tjóni eða slysum og hugsanlega ógnað lífi og limum ef aðgát er ekki höfð.
Í samræmi við þetta mun eins og áður segir allt barna- og unglingastarf falla niður í Mjölni og skoðað verður hvort lokað verður alfarið eftir hádegi á morgun. Vinsamlegast fylgist með tilkynningu þess efnis á Facebooksíðu Mjölnis.