2-1 FYRIR OKKAR MENN Í LONDON

Þrír Mjölnismenn kepptu á Fightstar bardagakvöldinu í London í gærkvöld, þeir Diego Björn Valencia, Birgir Örn Tómasson og Sigurjón Rúnar Vikarsson. Diego og Birgir keppa atvinnumannabardaga en Sigurjón áhugamannabardaga.

Sigurjón Rúnar var fyrstur af Íslendingunum en hann mætti Christian Knight í áhugamannabardaga. Bardaginn fór fram í veltivigt en þetta var annar áhugamannabardagi Sigurjóns. Bardaginn byrjaði rólega þar sem báðir bardagamenn fikruðu sig áfram. Sigurjón náði þó glæsilegri yfirhandar hægri sem felldi Knight. Sigurjón reyndi að fylgja eftir með höggum í gólfinu en Knight varðist vel og tókst Sigurjóni ekki að gera mikinn skaða. Sigurjón hleypti Knight upp og hélt bardaginn þar áfram. Sigurjón fékk ágætis beina vinstri í sig í lok lotunnar en Sigurjón sigraði lotuna.

Í 2. lotu gerðist ekki mikið en Knight náði nokkrum skrokkhöggum í Sigurjón. Lotan var nokkuð jöfn og náði Sigurjón tvisvar að hitta ágætlega með hægri í lotunni.

Í 3. lotu náði Knight nokkrum þungum spörkum í skrokkinn á Sigurjóni sem meiddu Sigurjón. Sigurjón hörfaði og reyndi að verja sig á meðan hann var á flótta. Knight sótti ákaft og reyndi Sigurjón að verjast höggum Knight en dómarinn hafði séð nóg og stöðvaði bardagann. Christian Knight sigraði því eftir tæknilegt rothögg í 3. lotu og er Sigurjón því 1-1 sem áhugamaður eftir kvöldið.

Birgir Örn Tómasson mætti síðan Stelios Theo í atvinnumannabardaga og Birgir kláraði Theo með tæknilegu rothöggi í 1. lotu.

Bardaginn fór fram í léttvigt og var fyrsti atvinnubardagi kvöldsins. Birgir hefur nú klárað alla þrjá atvinnubardaga sína með rothöggi og þar af tvo í 1. lotu. Bardaginn byrjaði nokkuð fjörlega og var Birgir fljótur að finna hægri höndina sína. Eftir að Theo hafði fengið nokkrar hægri í sig fór hann í fellu og náði Birgi niður um skamma stund. Birgir gerði hins vegar vel í að koma sér upp við búrið og kom sér á lappir en át nokkur góð hné í skrokkinn frá Theo.

Theo var með Birgi upp við búrið en í stað þess að halda pressunni gerði hann þau mistök að bakka og gefa Birgi pláss. Þá byrjaði Birgir að sækja vel og át Theo nokkur góð högg og þar á meðal spark í skrokkinn. Birgir fann að Theo var meiddur og lét hann nokkur góð högg fylgja. Eftir þunga beina hægri í skrokkinn féll Theo niður og stöðvaði dómarinn bardagann eftir 3:11 í 1. lotu. Frábær frammistaða hjá Bigga!

Síðastur okkar manna var Diego Björn Valencia sem mætti Dawid Panfil í 90 kg hentivigt. Diego fékk bardagann staðfestan á þriðjudaginn og fékk því ekki mikinn tíma í undirbúning. Það truflaði þó okkar mann ekki neitt sem sigraði bardagann eftir armlás í 2. lotu.

1. lota var fremur róleg og stóðu þeir lengi. Diego náði tveimur ágætis háspörkum en Panfil varðist þeim ágætlega. Panfil sótti í „clinchið“ upp við búrið en úr stöðunni náði Diego fellu. Diego hélt sér ofan á í dágóðan tíma en náði ekki að gera mikinn skaða og Panfil var ekki heldur að ógna mikið af bakinu.

Diego byrjaði 2. lotu strax á 4-5 spörkum. Diego virtist renna niður og fór Panfil niður í „guardið“ hjá Diego. Diego fór strax í armlás og var ekki langt frá því að klára en Panfil varðist vel. Skömmu síðar fór hann í „triangle“ og var fljótur að læsa hengingunni. Panfil reyndi að berjast um en þurfti að tappa út eftir armlás úr „triangle“ stöðunni að lokum. Diego sigraði því eftir armlás eftir 1:57 í 2. lotu. Frábærlega vel gert hjá Diego að klára þetta verkefni eftir að hafa komið seint inn í bardagann.




 

 

 


MjölnirMjölnir MMA

Flugvallarvegur 3-3a
102 Reykjavík
Iceland

+354 534 4455
mjolnir@mjolnir.is

OPNUNARTÍMAR

Mánudagar og miðvikudagar: 06:15 - 22:00

Þriðjudagar og fimmtudagar: 07:00 - 22:00

Föstudagar: 06:15 - 20:00

Laugardagar: 08:45 - 15:00

Sunnudagar: 10:00 - 15:00

Æfingasalir loka samkvæmt stundatöflu þegar síðasta tíma lýkur en lyftingasalir eru opnir mán.-fim. til 22:00 og fös. til 20:00.

Sauna, heiti- og kaldi pottur loka 15 mínútum á undan skipulagðri lokun.

Skráning á póstlista

Svæði