Flýtilyklar
1-1 Í LITHÁEN
Okkar menn Birgir Örn Tómasson og Diego Björn Valencia stóðu í ströngu um helgina er þeir kepptu á King of the Cage í Litháen á laugardaginn. Bardagarnir komu upp með skömmum fyrirvara en strákarnir ákváðu að slá til þrátt fyrir að Diego þyrfti að keppa í léttþungavigt en hann keppir alla jafnan í veltivigt.
Birgir Örn mætti Renatas Buskus (1-1 fyrir bardagann) í 68 kg hentivigt en skipt var um andstæðing Birgis á síðustu stundu í vigtuninni á föstudaginn. Buskus reyndi snemma fellu en Birgir varðist vel en fékk fingur í augað þegar að gera þurfti örlítið hlé á bardaganum. Þegar bardaginn hófst aftur náði Birgir nokkrum fínum höggum inn en Buskus náði þó fellu eftir rúma mínútu af bardaganum. Buskus náði þó ekki að gera mikið í gólfinu og Birgir Örn varðist vel og náði að standa upp aftur.
Eftir þetta hafði Birgir talsverða yfirburði og í lok lotunnar lét okkar maður nokkur góð högg dynja á Buskus upp við búrið. Lotan kláraðist en Buskus treysti sér ekki til að halda áfram og gaf dómaranum merki um það. Birgir Örn sigraði því á tæknilegu rothöggi í 1. lotu og er nú 2-0 á atvinnumannaferlinum en báðir sigrarnir voru eftir rothögg.
Diego Björn Valencia mætti síðan Laurynas Urbonavicius sem kallaður er Kafteinn Litháen. Laurynas er mun reyndari bardagamaður með recordið 7-1 fyrir þennan bardaga auk þess sem bardaginn fór fram í léttþungavigt eins og áður segir.
Þeir Diego og Laurynas byrjuðu á að þreifa fyrir sér í byrjun bardagans. Laurynas skaut í fellu sem Diego varðist fellunni ágætlega upp við búrið til að byrja með en Laurynas tókst þó að ná Diego niður að lokum.
Af bakinu reyndi Diego að sækja í armlás en Laurynas varðist vel og kom með þung högg í gólfinu. Diego hélt áfram að sækja af bakinu en Laurynas varðist öllu og höggin urðu þyngri og þyngri hjá heimamanninum þegar leið á. Að lokum var dómarinn búinn að sjá nóg og stöðvaði hann bardagann í 1. lotu. Laurynas sigraði því eftir tæknilegt rothögg í 1. lotu. Diego er núna 2-2 sem atvinnumaður í MMA á meðan Laurynas er 8-1.
Allt fer þetta samt í reynslubankann og við erum afar stolt af okkar mönnum.